Vitundarvakning um blóðhluta

Nefnd um blóðhlutanotkun á Landspítala hefur starfað frá hausti 2016. Hlutverk nefndarinnar er að stuðla að bættri blóðbankaþjónustu og öruggri og markvissri notkun blóðhluta. Öryggi sjúklinga er alltaf í fyrirrúmi á Landspítala og því er afar mikilvægt að fylgjum ráðlögðu verklagi við sýnatökur, pantanir, blóðinngjafir og skráningu gefinna blóðhluta. Meðal stærstu verkefna nefndarinnar er að bæta vinnulag við pöntun blóðhluta, auka skráningu blóðinngjafa í Interinfo tölvukerfið og að uppfæra klínískar leiðbeiningar um blóðhlutanotkun.

Ferli við að panta og gefa blóðhluta - Ítarefni

Sýna allt

Læknir þarf að skrá fyrirmæli um inngjöf blóðhluta skilmerkilega í sjúkraskrá sjúklings. Meðal annars skulu koma fram ábending, hvaða blóðhluta skal gefa, magn og tímasetning inngjafar sbr. Klínískar leiðbeiningar um blóðhlutanotkun (2012).

Fyrirmæli um gjöf blóðhluta skulu gefin af læknum og skráð á viðeigandi fyrirmælablöð á legudeildum en á vöknun og gjörgæsludeildum á sérstök fyrirmælablöð þeirra deilda eða rafrænt eftir því sem við á.

Beiðnir og blóðsýni. Sjúklingur þarf að eiga BAS/BKS próf í gildi til að hægt sé að afgreiða blóðhluta. BAS/BKS er staðfesting á fyrri blóðflokkun og tryggir að blóðhluti sé af réttum blóðflokki. Ef BAS/BKS er ekki í gildi þarf að senda beiðni og blóðsýni til Blóðbankans. Muna auðkenningu sjúklings og að persónuvotta beiðni!

Ef sjúklingur er ekki til blóðflokkaður þarf fyrst að senda sýni og beiðni um blóðflokkun. Það er mikilvægt öryggisatriði að fyrsta blóðflokkun og sýni fyrir BAS/BKS próf séu tekin á mismunandi tíma þannig að staðfestingarflokkun sé örugg.

Upplýsingar um blóðflokk og BAS/BKS próf má nálgast í Interinfo kerfinu, sem er aðgengilegt bæði úr Heilsugátt og Sögu.

Þegar staðfest hefur verið að sjúklingur eigi gilt BAS/BKS próf eru fyrirmæli um inngjöf blóðhluta „tekin upp“ og pöntun blóðhluta framkvæmd. Pantanir blóðhluta eru gerðar með því að fylla út viðeigandi eyðublað eða hringja í Blóðbankann (s: 543 5507/5514). Nú er verið að vinna að innleiðingu rafræns pöntunarkerfis blóðhluta í Heilsugátt, sem ætti að auðvelda pantanir og fækka símhringingum. Stefnt er að því að taka rafrænt pöntunarkerfi í notkun í byrjun árs 2018.

Starfsmenn Blóðbankans taka til blóðhluta og pakka niður í sérstakar blóðflutningstöskur sem síðan eru sendar með skutlu/leigubílum á viðeigandi sjúkrahús þar sem blóðhlutum (rauðkornaeiningum) er komið fyrir í blóðskáp.

Starfsmenn sjúkradeilda sækja blóðhluta í blóðskáp fyrir inngjöf. Mikilvægt er að blóðhlutar séu geymdir við rétt hitastig. Hefja skal inngjöf á rauðkornum og plasma innan við 30 mínútum frá því að einingar voru teknar úr kæli. Blóðflögueiningar eru ALDREI geymdar í kæli og skal gefa um leið og þær berast á sjúkradeild.

Mikilvægt að gera eftirfarandi öryggis“tékk“ fyrir blóðhlutainngjöf með samlestri:

 

  • Auðkenni sjúklings: Spyrja um fullt nafn sjúklings og kennitölu – og bera saman við armband sjúklings, fyrirmæli í sjúkraskrá og merkingu á blóðhluta/fylgiseðlum.
  • Fyrirmæli um blóðinngjöf: Staðfesta að verið sé að gefa inn rétta tegund af blóðhluta með því að lesa fyrirmæli í sjúkraskrá saman við merkingu á blóðhluta/fylgiseðlum. Athuga sérstaklega sérkröfur svo sem geislun.
  • Blóðhluti og fylgiseðlar: Lesa saman á blóðhluta og fylgiseðlum eftirfarandi; blóðhlutanúmer, ABO RhD blóðflokk og fyrningardagsetningu blóðhluta.
Það er lögbundin skylda að skrá upplýsingar um inngjöf blóðhluta í Interinfo fyrir hverju einustu blóðhlutaeiningu sem sjúklingur fær. Þetta er tekið fram í reglugerð um notkun blóðs. Ástæðan er sú að nauðsynlegt að vita hvaða blóðgjafi gaf hvaða sjúklingi blóð. Þetta er nefnt „rekjanleiki“ og skiptir miklu máli t.d. við rakningu hugsanlegs smits við blóðinngjöf. Á Landspítala á alltaf að skrá inngjöf allra blóðhluta í Interinfo kerfið sem er aðgengilegt bæði úr Sögu og Heilsugátt.

      Ferli við að panta og gefa blóðhluta

 

Blóðhlutainngjöf - ábendingar og fyrirmæli

Verð á blóðhlutum:

 

 

 

Möguleg inngjöf rauðkornaþykknis milli ABO blóðflokka:

Möguleg inngjöf blóðvökva (plasma) milli ABO blóðflokka: